Við hjá AGR Dynamics erum afskaplega ánægð með útkomu hinnar árlegu morgunverðarráðstefnu sem haldin var á Grand Hótel í Reykjavík, morguninn 21. september. Ráðstefnan var sú besta til þessa að okkur mati, en hún samanstóð af sjö fyrirlesurum, um 200 þátttakendum og frábæru morgunverðarhlaðborði.

 

Haukur Hannesson, framkvæmdastjóri AGR Dynamics, hóf ráðstefnuna á því að tala um nýju áætlunareininguna okkar, nýja viðskiptavini og markmið okkar um að leggja 20% af hagnaði okkar í þróun á bættum lausnum fyrir viðskiptavini. Næstur tók til máls framkvæmdastjóri AGR Nordic, Kim Petersen, sem leiddi ráðstefnugesti í gegnum ítarlega greiningu á S&OP verkferlinu (Sales and Operations Planning) sem var verðugt umhugsunarefni fyrir fyrirtækin í salnum og hvatti þau til að skoða núverandi ferla og kanna hvort þeir gæfu þeim fullnægjandi niðurstöður.

 

Megináhersla ráðstefnunnar var nýja lausnin okkar í sölu- og kynningaráætlunargerð og því steig Finnur Bragason, sölu- og markaðsstjóri, næstur á svið til að kynna nýja áætlunarkerfið og hvernig megi setja upp sniðmát til að sérsníða lausnir í samræmi við þarfir viðskiptavinarins hverju sinni. Einar Karl Þórhallsson, rekstrarstjóri, fór enn lengra og sýndi fram á hversu auðvelt það er að innleiða ákveðin sniðmát fyrir heildsölufyrirtæki. Þróunarstjórinn Daði Árnason kynnti síðan nokkur sniðmát sem hægt er að bæta við áætlunarkerfið og tók sem dæmi hvernig við hjá AGR Dynamics skipuleggjum okkar teymi í tengslum við verðmætaskipulag og skráningu frídaga.

 

Síðustu tveir fyrirlestrar ráðstefnunnar kynntu framtíð AGR kerfisins og hvert þróun hennar stefnir. Nýjasta afurðin okkar, fjárhagsáætlunartólið, var síðan kynnt fyrir ráðstefnugestum af Sigrúnu B. Gunnhildsdóttur, en hún sýndi hvernig okkur hefur tekist að koma öllum upplýsingum og ferlum í tengslum við fjárhagsáætlanir saman á einn stað. Agnes Jóhannsdóttir kom á eftir Sigrúnu og fjallaði um vélanám (machine learning) og hvernig AGR Dynamics hefur lagt áherslu á fjárfestingar þar til að nýta þessa tækni til að hjálpa viðskiptavinum okkar við að taka enn upplýstari ákvarðanir innan áætlunarkerfisins okkar.

 

Ráðstefnunni lauk 10:10 og þar af leiðandi gafst gestum okkar nægur tími til að halda til vinnu með fullan maga af gómsætum morgunmat og höfuðið uppfullt af hugmyndum um vélanám og allt í tengslum við áætlanagerð. Við erum afar þakklát fyrir að svona margir viðskiptavinir okkar gátu séð sér fært að mæta á ráðstefnuna til að hitta okkur og fræðast um allt það sem er í gangi hjá okkur. Við hlökkum til komandi ára og frábærra lausna og við tökum alltaf vel á móti hvers kyns endurgjöf. Hér að neðan má finna myndir sem teknar voru á ráðstefnunni.

Facebook Comments
Facebooktwitterredditlinkedin